Raforkusölusamningur

1.       Aðilar samnings og gildissvið

Straumlind ehf., kt. 480920-0150, hér eftir Straumlind, og [NAFN], kt. [KENNITALA], hér eftir viðskiptavinur, gera með sér ótímabundinn samning um að Straumlind selji viðskiptavini raforku á því heimilisfangi sem viðskiptavinur tilgreindi við skráningu.

Samningur þessi gildir jafnframt um önnur heimilisföng sem viðskiptavinur er skráður fyrir hafi hann óskað eftir því við Straumlind að kaupa þar rafmagn eða ef skráning á nýju heimilisfangi berst Straumlind frá Netorku.

Samningurinn kveður á um réttindi og skyldur beggja samningsaðila. Efni samningsins fjallar eingöngu sölu Straumlindar á raforku en ekki framleiðslu, flutning eða dreifingu á raforku þar sem aðrir aðilar en Straumlind annast og bera ábyrgð á þeim þáttum.

Um sölu Straumlindar á raforku gilda raforkulög nr. 65/2003, reglugerð um framkvæmd raforkulaga nr. 1040/2005 og reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1150/2019.

2.      Upplýsingaöflun og áætlun

Viðskiptavinur samþykkir að Straumlind afli upplýsinga frá viðeigandi dreifiveitu um raforkunotkun sína í fortíð, þ. á m. um númer veitu og mælis, dreifisvæði, heimilisfang, núverandi söluaðila raforku að hluta til, dreifiveitutaxta, áætlaða ársnotkun, meðalnotkun, síðasta álestur, mæliaðferð, stöðu mælis, margföldunarstuðul og stafafjölda. Ef um tímamældar veitur er að ræða þá eru tímagildin afhent allt að 24 mánuði aftur í tímann. Upplýsingar sem Straumlind fær um raforkunotkun viðskiptavinar í fortíð eru notaðar til að ákvarða áætlun fyrir hann um orkunotkun.

Hafi viðskiptavinur ekki keypt raforku áður er Straumlind heimilt að áætla notkun hans með hliðsjón af notkun viðskiptavina sem eru sambærilegir að mati Straumlindar.

3.      Söluaðilaskipti

Ef viðskiptavinur er þegar í viðskiptum hjá öðru sölufyrirtæki raforku leiðir undirritun samnings þessa til söluaðilaskipta hjá viðskiptavini. Söluaðilaskipti fara fram í samræmi við 9. kafla Netmála Landsnets hf., sbr. B6 skilmála um samskipti milli aðila á raforkumarkaði með grunn-, mæli- og uppgjörsgögn.

4.     Notendaskipti

Ef viðskiptavinur flytur búferlum og fær nýtt heimilisfang á samningstímanum leiðir það til notendaskipta. Notendaskipti þýða að tenging viðskiptavinar (notanda) við raforkukerfið flyst frá einum stað til annars. Notendaskipti hafa almennt ekki áhrif á samningssamband Straumlindar og viðskiptavinar, en Straumlind áskilur sér þó rétt til að hafna nýjum notkunarstað viðskiptavinar.

5.      Verð og greiðsluskilmálar

Verð á raforku hjá Straumlind fer eftir gildandi verðskrá nema um annað sé sérstaklega samið eða ef raforkunotkun viðskiptavinar er með þeim hætti að almenn verðskrá hentar ekki s.s. ef hún er mjög óregluleg eða með háa afltoppa á álagstímum.

Verðskrá Straumlindar er birt á www.straumlind.is. Verðið sem viðskiptavinur greiðir fyrir raforku er einnig að finna á reikningum frá Straumlind. Straumlind innheimtir skatta og gjöld vegna raforkunotkunar samkvæmt gildandi lögum.

Straumlind gefur mánaðarlega út reikning til viðskiptavinar vegna raforkunotkunar. Viðskiptavinur getur nálgast reikninginn á Mínar síður á www.straumlind.is.

Straumlind býður viðskiptavinum upp á tvær greiðsluleiðir. Annars vegar með því að greiða kröfu í netbanka og hins vegar boðgreiðslu á kreditkort. Straumlind áskilur sér rétt til að innheimta greiðslugjöld vegna beggja greiðsluleiða.

6.      Innheimta, dráttarvextir og stöðvun orkuafhendingar

Sé reikningur ekki greiddur á gjalddaga reiknast dráttarvextir af kröfunni frá gjalddaga til greiðsludags í samræmi við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Auk dráttarvaxta innheimtir Straumlind innheimtukostnað.

Hafi viðskiptavinur valið að greiða fyrir raforkunotkun með boðgreiðslum á kreditkort en ekki tekst að skuldfæra greiðsluna á tilsettum degi mun Straumlind senda viðskiptavini tilkynningu og fara fram á úrbætur af hálfu viðskiptavinar eins fljótt og auðið er. Sé enn ekki hægt að skuldfæra boðgreiðslu að tíu dögum liðnum frá því að tilkynning var send mun Straumlind senda viðskiptavini kröfu í netbanka og taka viðkomandi samhliða úr boðgreiðslum.

Komi til vanskila af hálfu viðskiptavinar sendir Straumlind skriflega greiðsluáskorun ásamt viðvörun um að verði ekki greitt muni koma til stöðvunar á orkuafhendingu á samningi aðila. Fyrirvari vegna stöðvunar á orkuafhendingu verður minnst 30 dagar. Straumlind er heimilt, með fulltingi dreifiveitu, að stöðva orkuafhendingu til viðskiptavinar þar til reikningur er að fullu greiddur ásamt kostnaði.

Krafa vegna raforkuskuldar sem innheimt er í samræmi við raforkulög er aðfararhæf án dóms eða sáttar.

7.      Lok samningssambands

Almennur uppsagnarfrestur á samningi þessum er minnst þremur vikum fyrir mánaðarmót og tekur uppsögnin þá gildi um næstu mánaðarmót. Séu minna en þrjár vikur til mánaðarmóta tekur uppsögnin gildi um þar næstu mánaðarmót. Ef viðskiptavinur notar árlega meira en 0,5 GWst er uppsagnarfrestur 3 mánuðir og ef árleg notkun viðskiptavinar er meiri en 1 GWst er uppsagnarfrestur minnst 4 mánuðir.

Viðskiptavini er heimilt að rifta samningi þessum ef Straumlind vanefnir skyldur sínar verulega.

Straumlind er heimilt að rifta samningi þessum ef viðskiptavinur stendur ekki í skilum með greiðslur. Komi til vanskila af hálfu viðskiptavinar sendir Straumlind skriflega greiðsluáskorun ásamt viðvörun um að verði ekki greitt muni koma til riftunar á samningi þessum. Fyrirvari vegna riftunar samnings verður minnst 30 dagar.

Straumlind er heimilt að rifta samningi við viðskiptavin án fyrirvara ef bú viðskiptavinar er tekið til gjaldþrotaskipta.

8.     Persónuvernd

Straumlind vinnur með persónuupplýsingar sem viðskiptavinur gefur sjálfur, t.d. við upphaf viðskipta. Heimildir Straumlindar til vinnslu upplýsinganna byggja á ákvæðum laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Straumlind aflar eingöngu persónuupplýsinga sem eru nauðsynlegar til að framkvæma samning við viðskiptavin og uppfylla lagalegar skyldur sem hvíla á félaginu. Straumlind deilir ekki persónuupplýsingum í öðrum tilgangi en þeim sem eru nauðsynlegur til að félagið geti uppfyllt skyldur sínar og samninga eða í öðrum löglegum tilgangi.

9.      Óviðráðanleg atvik

Straumlind ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til óviðráðanlegra atvika (force majeure) en með því er almennt átt við aðstæður sem hvorugur gat séð fyrir og sem hafa bein áhrif á efndir samnings, s.s. náttúruhamfarir s.s. flóð eða þurrka, eldsvoða eða styrjöld. Að öðru leyti fer um þetta efni samkvæmt almennum reglum kröfuréttar um efndir loforða og samninga.

Ef erfiðleikar eru við orkuöflun er Straumlind heimilt, án þess að til bótaskyldu stofnist, að skerða afhendingu raforku. Straumlind lætur vita af slíkri skerðingu fyrir fram eftir því sem unnt er.

10.    Úrlausn ágreiningsmála

Komi upp ágreiningur á milli Straumlindar og viðskiptavinar vegna samnings þessa skulu aðilar reyna að leita sátta. Takist það ekki getur viðskiptavinur beint kvörtun til Orkustofnunar. Viðskiptavinur getur sömuleiðis beint kvörtun til Orkustofnunar ef hann telur Straumlind ekki standa við skyldur sínar samkvæmt raforkulögum eða tengdum reglugerðum.

Rísi dómsmál út af samningi þessum skal reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

11.     Höfnun á viðskiptum

Straumlind áskilur sér rétt til að hafna raforkuviðskiptum við aðila, svo sem ef raforkunotkun hans er þess eðlis að Straumlind er illmögulegt að afhenda umbeðið magn af orku, hann stendur í skuld við Straumlind, er skráður í vanskilum á vanskilaskrá eða hefur verið úrskurðaður gjaldþrota.

Komi til þess Straumlind hafni því að taka almennan notanda í viðskipti getur viðkomandi kvartað undan þeirri ákvörðun til Orkustofnunar.

Ef viðskiptavinur er lögaðili:

[NAFN], kt. [KENNITALA], sem gerði samning þennan fyrir hönd viðskiptavinar, hefur staðfest að vera prókúruhafi viðskiptavinar og geta skuldbundið viðskiptavin gagnvart Straumlind.

Straumlind logo
Bjargargata 1 102 Reykjavík
Kennitala: 480920-0150
VSK númer: 139585
Höfundaréttur © Straumlind 2024
HAFA SAMBAND
Messenger
Tölvupóstur og Messenger skilaboð eru bestu leiðirnar til að ná sambandi við Straumlind.
Símsvörun kl. 10-12 alla virka daga.