Straumlind styrkir mastersverkefni í Háskólanum í Reykjavík

Síðastliðinn vetur styrkti Straumlind tvö M.Sc. rannsóknarverkefni í orkuverkfræði í Háskólanum í Reykjavík. Annars vegar verkefnið ,,Arðsemi notkunar rafhlöðu til orkujöfnunar fyrir Landsnet" eftir Nathaniel Rybin og hins vegar verkefnið ,,Innsýn inn í umhverfisviðhorf: Hagfræði- og sálfræðilegar aðferðir til að ná til viðskiptavina rafmagnsveitna og rafbílaeigenda" eftir Max Gamerman.

Hér fyrir neðan er örstutt lýsing á verkefnunum:

Arðsemi notkunar rafhlöðu til orkujöfnunar fyrir Landsnet

Verkefnið rannsakaði arðsemi þess að nota rafhlöður til orkujöfnunar fyrir Landsnet. Stórar rafhlöður njóta sívaxandi vinsælda vegna lækkandi framleiðslukostnaðar og möguleikum á að samþætta þær við endurnýjanlega orkugjafa, s.s. vind- og sólarorku. Rafhlöður bjóða upp á ýmis tækifæri til að draga úr kostnaði og skapa tekjur. Verkefnið lagði mat á tekjur sem rafhlöður gætu skapað miðað við núverandi markaðsaðstæður, þ.e. framleiðslukostnað rafhlöðunnar, rafmagnsverð o.fl.

Niðurstöður verkefnisins bentu til þess að rafhlaðan sé ekki arðbær í núverandi markaðsaðstæðum.

Innsýn inn í umhverfisviðhorf: Hagfræði- og sálfræðilegar aðferðir til að ná til viðskiptavina rafmagnsveitna og rafbílaeigenda

Verkefnið greindi hvernig nota mætti breytilegt verðlag og atferlisfræðilegar aðferðir til að stuðla að tilfærslu raforkunotkunar yfir á lágannatíma. Breytilega verðið fólst í því að bjóða viðskiptavinum Straumlindar 34% afslátt af rafmagni á milli kl. 02:00 og 06:00 á nóttunni.

Niðurstöður verkefnisins leiddu í ljós tölfræðilega marktæk tengsl milli gagna um raforkunotkun viðskiptavina Straumlindar á klukkustund og tímaramma afsláttarins.

Hamingjuóskir!

Nate og Max voru virkilega duglegir að mæta á skrifstofuna. Það var líka ýmislegt brallað utan vinnu og saman héldum við m.a. þakkargjörðarhátíð með kalkún og graskersböku. Við hjá Straumlind þökkum kærlega fyrir frábær kynni og óskum Nate og Max innilega til hamingju með útskriftina!

Straumlind logo
Bjargargata 1 102 Reykjavík
Kennitala: 480920-0150
VSK númer: 139585
Höfundaréttur © Straumlind 2024
HAFA SAMBAND
Messenger
Tölvupóstur og Messenger skilaboð eru bestu leiðirnar til að ná sambandi við Straumlind.
Símsvörun kl. 10-12 alla virka daga.