Straumlind og Alor vinna saman að bættri orkunýtingu
Straumlind og nýsköpunarfyrirtækið Alor hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf sem snýr að því að þróa lausnir í því skyni að bæta orkunýtingu rafmagns, jafna álag og selja hagkvæmt rafmagn til heimila landsins.
Frá árinu 2021 hefur Straumlind boðið Íslendingum að kaupa rafmagn á hagkvæmu verði og notar til þess eigið tölvukerfi, hannað með snjallmæla, sjálfvirkni og framtíðina í huga. Tölvukerfið gefur Straumlind sérstöðu á markaði og mikla aðlögunarhæfni. Straumlind var þannig fyrsti raforkusalinn til að sjálfvirknivæða nýskráningar og bjóða almennum notendum Ódýrara rafmagn á nóttunni.
„Við hjá Straumlind teljum að íslensk heimili geti leikið stórt hlutverk í að nýta raforkukerfið betur. Betri nýting innviða minnkar þörf fyrir ótímabærar og dýrar fjárfestingar til að ráða við álagstoppa. Straumlind vinnur að kappi að því að vera besti valkostur heimilanna á raforkumarkaði bæði út frá verði og þróun á snjöllum lausnum. Í dag bjóðum við lægsta verðið á markaði, Ódýrara rafmagn á nóttunni og erum að þróa lausnir sem veita munu hinum almenna notanda upplýsingar og jákvæða hvata til að stuðla að álagsjöfnun. Við höfum trú á því að samstarf við Alor geti veitt mikilvægan stuðning við þessi verkefni.“ segir Símon Einarsson, framkvæmdastjóri Straumlindar.
Alor vinnur að þróun á vistvænum orkugeymslum með rafhlöðum sem munu styðja við verkefni Straumlindar í tengslum þróun lausna við álagsjöfnun, orkunýtingu og sölu á hagkvæmu rafmagni á Íslandi. Álrafhlöður Alor eru um 95% endurvinnanlegar, með lítið umhverfisfótspor auk þess að vera öruggar í meðhöndlun og flutningi þar sem af þeim stafar hvorki eld- né sprengihætta. Rannsóknir hafa sýnt að endingartími rafhlaðnanna er a.m.k. tvöfalt lengri en þekktrar rafhlöðutækni á markaði í dag. Áætlað er að vöruþróunarvinnu á rafhlöðulausnum ljúki undir lok árs 2024.
„Það hefur aldrei verið mikilvægara að nýta framleitt rafmagn sem best og þar spila orkugeymslur lykilhlutverk, þ.e. með því að geyma rafmagn þar til þess er þörf og fletja álagstoppa. Stórar áskoranir kalla á samstarf ólíkra aðila og við teljum að verðmætar lausnir geti skapast með því að leiða saman okkar byltingakenndu rafhlöðutækni og raforkusala sem hefur nýsköpun að leiðarljósi“ segir Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra Alor.